Listi Viðreisnar til borgarstjórnarkosninga 2018

Viðreisn býður nú í fyrsta skipti fram lista til borgarstjórnarkosninga í Reykjavík. Listinn er fléttulisti þar sem leitast var eftir sem mestri fjölbreytni í aldri, reynslu, búsetu og kyni. 

 
 
31959254_164263177604324_3944264949785690112_n.jpg

1. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir - rekstrarhagfræðingur

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er af þingeysku og sunnlensku bergi brotin. Hún er fædd á Selfossi, alin upp í Breiðholti, býr í Árbæ og sinnir skógrækt í Suður-Þingeyjarsýslu á sumrin. Segja má að hún sé einhvers konar blanda af uppátækjasömum Breiðhyltingi, montnum Þingeyingi og söngelskum Árnesingi.

Lóa lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti, sjónvarpsframleiðslu í New Orleans, BA prófi í félagsfræði og framhaldsnámi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og loks MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Að loknu framhaldsnámi í félagsráðgjöf starfaði hún hjá Reykjavíkurborg, sem yfirmaður öldrunarþjónustu Reykjavíkur 1997-2000 og sem framkvæmdastjóri þjónustusviðs velferðarmála borgarinnar 2000-2005. Á sama tíma var hún stundakennari við Háskóla Íslands auk þess að sitja í fjölmörgum ráðum og nefndum, m.a. á vegum borgarstjórnar og ráðuneyta. Á árunum 2005-2015 var Lóa eigandi og framkvæmdastjóri Pizza Hut á Íslandi og í Finnlandi. Þá fékkst hún við dagskrárgerð í sjónvarpi um nokkurt skeið en var síðar forstjóri Gray Line til ársloka 2017.

Lóa er ötull talsmaður þess að stjórnir, stjórnendastöður og fjölmiðlar endurspegli fjölbreytileika mannlífsins en hugsjónir hennar snúa ekki síst að því að sem flestir hafi áhrif á samfélagið. Lóa var formaður Félags kvenna í atvinnulífinu 2013-2017 auk þess að gegna stjórnarformennsku í Finnsk-íslenska viðskiptaráðinu um árabil. 

 
Vidreis- Rvk-Pawel.jpg

2. Pawel Bartoszek - Stærðfræðingur

Pawel Bartoszek er fæddur í Póllandi árið 1980. Hann hefur búið á Íslandi frá átta ára aldri. Hann er með meistararpróf í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur unnið sem háskólakennari og verkefnastjóri í hugbúnaðarþróun.

Pawel hefur skrifað fjölda greinar á Deigluna.com og í Fréttablaðið á undanförnum árum. Hann hefur verið virku í stjórnmálum í um nokkurt skeið. Hann í Stjórnlagaráði ári 2011. Þá hefur hann tekið þátt í starfi Viðreisnar frá 2016 og sat á þingi  fyrir Viðreisn á árunum 2016-2017.

Pawel er í sambúð með Önnu Heru Björnsdóttur, stærðfræðingi og dansara, og eiga þau saman tvö börn.

 
Vidreis- Rvk-Dilja.jpg

3. Diljá Ámundadóttir - Almannatengill & varaborgarfulltrúi

Diljá er fædd og uppalin í Reykjavík. Móðir hennar var einstæð og á leigumarkaðinum og þær fluttu þ.a.l heldur oft. Diljá bjó á 18-19 stöðum í Reykjavík fyrir 16 ára aldur.  Oftast í Þingholtunum en einu sinni í Breiðholti. Hún gekk þó alltaf í Austurbæjarskóla og þar leið henni óskaplega vel. 

Diljá útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 2000, með BA gráðu í verkefnastjórnun og frumkvöðlafræðum frá KaosPilot háskólanum í Árósum árið 2007 og svo með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík sumarið 2016. Diljá hefur komið víða við í menningar- og afþreyingariðnaðinum. Hún tók þátt í uppbyggingu tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves fyrstu 8 árin, var í ýmsum störfum hjá RÚV og Borgarleikhúsinu, leit við í Latabæ, vöruþróun hjá Hörpu tónlistarhúsi og einnig sem framleiðandi hjá CCP games í nokkur ár. Diljá hefur sl. 5 ár rekið eigið fyrirtæki Þetta reddast ehf., sem býður upp á fjölbreytta þjónustu en mest þó í almannatenglsum, kynningarmálum og markaðssetningu.

Í ársbyrjun 2010 fékk Diljá tilboð um að taka sæti á lista Besta flokksins í borgarstjórnarkosningunum um vorið. Sem hún þáði og það má því segja að hún hafi dottið óvart inn í stjórnmálin eftir afburðarsigur flokksins um vorið og hefur hún setið sem varaborgarfulltrúi og tekið sæti í ýmsum ráðum og nefndum borgarinnar allar götur síðar. Seinna kjörtímabilið sat hún fyrir Bjarta framtíð.

 
Vidreis- Rvk-Gunnlaugur.jpg

4. Gunnlaugur Bragi Björnsson - Viðskiptafræðingur

Gunnlaugur Bragi fæddist í Reykjavík fyrir tæplega 29 árum síðan. Barnskónum sleit hann á Höfn í Hornafirði til 16 ára aldurs þegar leiðin lá úr foreldrahúsum til Reykjavíkur þar sem hann hóf menntaskólagöngu. 

Gunnlaugur er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og viðskiptafræðingur, með áherslu á samskipti og upplýsingamiðlun, frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur unnið í þjónustustörfum, verslunarstjórn, bókhaldi og innheimtu auk þess að hafa sinnt starfi aðstoðarmanns forstjóra hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki. En undanfarin fimm ár hefur hann starfað hjá Arion banka, m.a. við þjónustustjórnun og vöruþróun en s.l. ár hefur hann sinnt verkefnum á sviði upplýsingamiðlunar og almannatengsla. 

Gunnlaugur Bragi er formaður Hinsegin daga í Reykjavík en var áður gjaldkeri sömu hátíðar frá árinu 2013. Áður sat hann m.a. í landsstjórn ungmennahreyfingar Rauða krossins 2005-2007 og 2010-2011, stjórn Rauða krossins í Reykjavík 2009-2012 og í landsstjórn Bandalags íslenskra skáta 2014-2015. Gunnlaugur var formaður ungmennadeildar Rauða krossins í Reykjavík 2009-2011, gjaldkeri Samtakanna ’78 árið 2012-2013 og gegndi tímabundið starfi framkvæmdastjóra sama félags á árinu 2013.

 
Vidreis- Rvk-Vilborg.jpg

5. Vilborg Guðrún Sigurðardóttir - Grunnskólakennari

Vilborg er fædd í Reykjavík árið 1983. Fyrstu æviárin bjó hún í Seljahverfinu í Breiðholti en flutti fimm ára til Ísafjarðar þar sem hún ólst upp þar til á menntaskólaárum. 

Vilborg gekk  bæði Menntaskólann á Ísafirði og Menntaskólann við Hamrahlíð. Hún útskrifaðist sem grunnskólakennari úr Kennaraháskóla Íslands árið 2007. Hún býr nú í Vesturbænum með Hjalta Einarssyni vinnusálfræðingi og dætrum þeirra þremur, Ragnheiði Elísabetu 14 ára, Hildi Katrínu 8 ára og Vigdísi Margréti 6 ára.

Vilborg hefur í rúman áratug starfað hjá Reykjavíkurborg. Lengst af sem grunnskólakennari í Vesturbænum eða síðastliðin 10 ár en þar áður sem sem verkefnastjóri hjá ÍTR. Vilborg hefur auk þess komið víða við, meðal annars sem gjaldkeri í banka, sem launafulltrúi og skrifstofumaður hjá tæknifyrirtæki. Auk þess hefur Vilborg sinnt trúnaðarstöfum og margvíslegum félagsstörfum.

 
Vidreis- Rvk-Geir.jpg

6. Geir Finnsson - Formaður Uppreisnar í Reykjavík

Geir er 26 ára Breiðhyltingur, búsettur og uppalinn í Seljahverfinu. 

Geir hóf skólagöngu í leikskólanum Hálsakoti og þaðan lá leiðin í Ölduselsskóla. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð og B.A. prófi frá Háskóla Íslands. Hann hefur starfað í verksmiðju, við blaðamennsku, þýðingar og verkefnastjórnun, auk fjölmargra trúnaðarstarfa í stjórnmálum og félagslífi. 

Geir er einn af stofnendum Viðreisnar. Hann gekk til liðs við umbótaaflið árið 2014 og tók virkan þátt í að móta hinn frjálslynda, jafnréttis- og alþjóðasinnaða flokk sem hann og marga aðra langaði að sjá í íslenskum stjórnmálum. Hann stofnaði ungliðahreyfinguna Uppreisn ásamt öðru frjálslyndu ungu fólki og tók nýverið við formennsku í Reykjavíkurarmi félagsins, Uppreisn í Reykjavík. Hann er jafnframt nýkjörinn formaður Ungra Evrópusinna.

 
IMG_4894.jpg

7. Arna Garðarsdóttir - Mannauðsstjóri Landbúnaðarháskóla Íslands

Arna er með kennarapróf og próf í náms- og starfsráðgjöf frá HÍ. Hún lærði mannauðsstjórnun í University of Washington í Seattle. Arna starfar sem mannauðsstjóri Landbúnaðarháskóla Íslands en áður vann hún við mannauðsmál hjá Actavis, CCP og Marel.

Arna er uppalinn á Eskifirði og segist hafa unnið allflest störf sem tengjast sjómennsku og fiskvinnslu auk starfa í ferðamannaiðnaðinum.

 
IMG_4995.jpg

8. Ingólfur Hjörleifsson - Aðjúnkt við Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ

Ingólfur er uppalinn í Garðarbæ og Reykjarvík og lauk stúdentsprófum frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1981. Hann lauk MSc gráðu í rafmagnsverkfræði frá Aalborg University árið 1989 og MPM gráðu frá Ericsson AB árið 1998. Hann er aðjúnkt við Háskóla Íslands en hafði m.a. áður unnið, sem verkfræðingur í Svíþjóð hjá Ericsson Telecom og rannsóknarstofum Ericsson Ellemtel 1991-1998 og við stjórnun verkefna og deilda í Sviþjóð og Danmörku hjá Ericsson AB 1998-2003. Síðar í fjarskipta- upplýsingartækni- og hugbúnaðargeiranum og fjármálageiranum en einnig, sem sjálfstæður verktaki og ráðgjafi. 

 

 
12778899_10154491704398238_916389409506067660_o.jpg

9. Helga Lind Mar - Laganemi, frístundaleiðbeinandi, aktívisti

Helga Lind ólst upp á Ísafirði, lauk þar menntaskólanámi en flutti síðan til Reykjavíkur þar sem hún hóf nám við Háskóla Íslands. Helga Lind hefur á síðastliðnum árum tekið virkan þátt í hvers kyns jafnréttisbaráttu, meðal annars í gegnum hagsmunabaráttu stúdenta og sem talsmaður Druslugöngunar.

 
IMG_4742.jpg

10. Hörður Ágústsson - Framkvæmdastjóri

Hörður er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann fæddist í miðbænum en óst upp í Háaleitis- og Bústaðahverfi frá 6 ára aldri, elstur þriggja systkina. 

Hörður gekk í Laugarnesskóla og Hvassaleitisskóli. Þaðan lá leiðin beint í Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist hann þaðan árið 1999. Árið 2003 útskrifaðist hann með Bsc. gráðu í viðskiptafræði með áherslu á þjónustu- og markaðsmál, frá Háskólanum í Reykjavík. Starfsferillinn hófst í 11-11 á Grensásvegi þegar Hörður var 15 ára. Hann stoppaði við hjá Nýherja, Íslandssíma/Vodafone, Median, Hive og Mílu áður en Macland varð til árið 2010 en hann hefur starfað þar og rekið fyrirtækið síðan.

Félagslíf hefur lengi átt stóran hluta af tíma Harðar og sat hann m.a. í skemmtinefnd Verslunarskóla Íslands og var formaður skemmtinefndar Háskólans í Reykjavík. Sú reynsla auk áhuga markaðsmálum var líklega það sem ýtti honum út í eigin rekstur. 
 

 

 
IMG_4851.jpg

11. Sara Sigurðardóttir - Sérfræðingur í markaðsmálum

Sara Sigurðardóttir er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, en frá 2008 hefur hún verið búsett eða með annan fótinn í borginni.

Hún útskrifaðist sem stjórnmálafræðingur 2013 úr Háskóla Íslands þar sem hún hafið m.a. gegnt stöðu formanns Stúdentaráðs HÍ og setið í hinum ýmsu nefndum og ráðum hvoru tveggja fyrir ráðið og háskólann. Í kjölfar útskriftar fluttist hún til Tokyo þar sem hún lærði smá japönsku og kláraði síðar mastersgráðu í alþjóðasamskiptum. Hún fluttist aftur heim til Íslands í upphafi árs 2017 og hefur starfað síðan sem sérfræðingur í markaðsmálum fyrir NetApp á Íslandi.

 
14470604_10153915214643597_2973016280048449190_n (1).jpg

12. Árni Grétar Jóhannsson - Leikstjóri og leiðsögumaður

Árni Grétar er uppalinn á Selfossi en flutti til Reykjavíkur upp úr tvítugu og gerðist þar útsvarsgreiðandi.

Hann lauk framhaldsskólagöngu á Selfossi og síðar BA gráðu í leikstjórn frá Rose Bruford. Árni Grétar starfaði fyrir Samtökin '78 í tæp fimm ár áður en hann söðlaði um og fór í leiðsöguskólann í MK. Í dag starfar hann sem leikstjóri, leiðsögumaður og athafnarstjóri hjá Siðmennt

 
IMG_4569.jpg

13. Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir - Nemi

Katrín fæddist í Reykjavík fyrir að verða 20 árum og ólst upp í Vesturbæ og Miðbæ Reykjavíkur. 

Að loknu grunnskólapróf frá Hagaskóla lá leiðin í Hamrahlíðina en þaðan mun Kata ljúka stúdentsprófi á kjördag, 26. maí næstkomandi. Í MH hefur hún látið til sín taka í nemendafélaginu og sat meðal annars í stjórn NFMH sem oddviti málfundafélagsins. Um þessar mundir vinnur hún að lokaverkefni í sálfræði sem snýr að virkni fíkniefnaforvarna Reykjavíkurborgar - enda er það hennar hjartans mál.

Það var ljóst frá unga aldri að Kata hefði sterkar skoðanir og væri sjálfri sér samkvæm í leik og starfi. Hún er harðdugleg og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún komið víða að í aktívisma. Til að mynda var hún jafningjafræðari Samtakanna ‘78 í tæp 4 ár og var í „street team“ Druslugöngunnar sumarið 2015. Þá stóð hún, ásamt öðrum, að stofnun Hinseginfélags MH sem verið hefur hávær rödd um hagsmuni hinsegin nemenda skólans. Kata er skúffuskáld, mikill dýravinur og grænkeri með brennandi áhuga á góðum mat.
 

 
IMG_4369.jpg

14. Freyr Gústavsson - Tekjustjóri

Freyr er fæddur í Reykjavík árið 1987 og alinn upp í Árbænum. Hann hefur búið í Reykjavík alla tíð fyrir utan tveggja ára dvöl í Lettlandi. Í dag býr hann í Úlfarsárdal ásamt eiginkonu og þremur börnum og hafa þau búið í hverfinu sl. 10 ár.

Freyr er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað sem tekjustjóri hjá Enterprise bílaleigu undanfarin 2 ár. Áður starfaði hann við eignaleigu og fjármögnun hjá Arion banka og Lykli, fjögur ár á hvorum stað.  
 

 
IMG_4446.jpg

15. Þórunn Hilda Jónasdóttir - Verkefnastjóri viðburða

Þórunn Hilda er fædd í Reykjavík en alin upp á Húsavík til 8 ára aldurs. Fyrstu árin í Reykjavík bjó hún við FFlókagötu og var því með Miklatún í bakgarðinum ef svo má segja og nýtti það óspart til að æfa sig á hjóla.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1998 og stundaði svo nám í viðskiptalögfræði á Bifröst. Hún vann í fjölda ára hjá Tal, síðar Vodafone, og sinnti þar ýmsum störfum. Þar sem Þórunn hefur alltaf verið mikill stuðbolti var hún lokkuð í vinnu hjá CP Reykjavík til að sjá um viðburði og ráðstefnur og sinnti því í nokkur ár, alveg þar til henni bauðst að sjá um slíkt fyrir Háskólann í Reykjavík þar sem hún vinnur í dag. Í kjölfar fæðingar einkabarnsins kynntist Þórunn styrktarfélaginu Líf en þar hefur hún einnig verið framkvæmdastjóri í hjáverkum frá árinu 2013.

 
20914203_10213492937945927_3048758168465843808_n.jpg

16. Arnar Kjartansson - Nemi

 
27858703_10156215993464374_7650964476838340395_n.jpg

17, Jenný Guðrún Jónsdóttir - Rekstrarstjóri

Jenný Guðrún fæddist í Reykjavik árið 1973.

Hún er menntaður kennari og kenndi í áratug en hefur starfað í fjármálageiranum síðustu 8 árin. Jenný er móðir tveggja barna, sextán og tveggja ára. Jenný segir Reykjavík hafa alla burði til að vera afburðar búsetukostur en það þurfi að gera mun betur í menntamálum og þá búa svo um hnúta að kennsla og uppeldisstörf séu eftirsóknarverð.

 
Screen Shot 2018-04-24 at 21.20.13.png

18. Sverrir Kaaber -Skrifstofustjóri 

 
IMG_5011.jpg

19. Kristín Ágústsdóttir - Sérfræðingur

Kristín Ágústsdóttir er fædd í Reykjavík, bjó sín uppvaxtarár að stærsta hluta í Kópavogi og er yngst af þremur systkinum. Hún fluttist 23 ára til Reykjavíkur og hefur búið þar meira og minna síðan. 

Hún lauk stúdentsprófi af hagfræðibraut Menntaskólans í Kópavogi, BSc í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík árið 2005 og MSc í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands árið 2012. Í dag stundar hún nám í verðbréfaviðskiptum samhliða vinnu. Kristín hóf starfsferilinn við að bera út Morgunblaðið. Önnur störf frá þeim tíma hafa m.a. verið í leikskóla, verslunar- og afgreiðslustörf, au-pair, móttökuritari á Landspítalanum, gjaldkeri og þjónustufulltrúi. Í tíu ár starfaði Kristín innan háskólasamfélagsins, fyrst hjá Háskólanum í Reykjavík sem verkefnastjóri við tækni- og verkfræðideild og á markaðs- og samskiptasviði. Síðar var hún forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs Háskólans á Akureyri en starfar í dag sem sérfræðingur í rekstrarteymi Stefnis.

Í uppeldi Kristínar þótti mikilvægt að eiga sér áhugamál og fimleikar og handbolti fyrir valinu. Mikil íþróttaiðkun var og er á meðal fjölskyldumeðlima og því ekki langt að sækja áhugann og keppnisskapið. Haustið 2012 hélt Kristín til Kólumbíu þar sem hún var í sjálfboðavinnu um nokkurra mánaða skeið og vann með krökkum úr fátækari hluta Bogotá.
 

 
IMG_4608.jpg

20. Oddur Mar Árnason - Þjónn

Oddur Mar Árnason er 19 ára nemi í Menntaskólanum við Hamrahlíð. 

Segja má að Oddur hafi fyrst komið  fram á sjónarsvið þegar hann kom af stað herferð til að fá hinn geysivinsæla Sítrónusvala aftur á markaðinn. Í grunnskóla stundaði hann þónokkrar íþróttir en tók enga jafn alvarlega og skylmingar sem skilaði honum Íslandsmeistaratitli árið 2010. 

Oddur mun útskrifast úr MH á sjálfan kjördag, 26. maí. Það verður því tvöfaldur merkisdagur fyrir Odd þegar hann útskrifast og verður á kjörseðli í fyrsta, en vonandi ekki síðasta, skipti. Eftir menntaskóla stefnir Oddur á námi í lögfræði við Háskóla Íslands. 
 

 
IMG_5038.jpg

21. María Rut Kristinsdóttir - Aðstoðarmaður formanns Viðreisnar 

María Rut er vestfirðingur í húð og hár og talar mjög mikið um það. Hún er að verða 29 ára en hefur búið í Reykjavík frá því að hún var tvítug. 

María hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík en lauk menntaskólagöngunni í Menntaskólanum á Ísafirði. Í framhaldinu hóf hún nám í sálfræði í Háskóla Íslands en helgaði sig stúdentapólitíkinni meðan á námi stóð. Hún sat í háskólaráði Háskóla Íslands í tvö ár en situr nú sem varamaður nú og gegndi stöðu formanns Stúdentaráðs á árunum 2013-2014. 

María var markaðsstjóri GOMOBILE 2014-2015. Á árunum 2015-2017 starfaði hún sem sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, síðar dómsmálaráðuneytinu, sem formaður samráðshóps ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfinu. Á þeim árum kom hún að stofnun Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, og sat þar í framkvæmdastjórn fyrir hönd ráðherra. Í dag starfar María sem aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. 

Hún er trúlofuð Ingileif Friðriksdóttur. Saman eiga þær soninn Þorgeir Atla sem er að verða 11 ára. María hefur ætíð verið atorkusöm þegar það kemur að sjálfboðaliðastarfi og félagsstörfum. Hún var talskona Druslugöngunnar í Reykjavík í þrjú ár, varaformaður Samtakana ‘78 og fékk viðurkenningu JCI Ísland sem einn af tíu framúrskarandi ungum Íslendingum árið 2014. Hún stofnaði Snapchat rásina Hinseginleikinn ásamt unnustu sinni og hefur þannig sinnt fræðslu með það að markmiði að brjóta upp staðalmyndir hinsegin fólks og fjölga fyrirmyndum. 
 

 
Screen Shot 2018-04-24 at 21.26.50.png

22. Einar Thorlacius - Lögfræðingur

Einar Örn er fæddur árið 1958 og ólst upp í Hlíðahverfinu, nánar tiltekið á Miklubrautinni gegnt Kjarvalsstöðum. Hann bjó lengi í vesturbænum en býr nú í miðbænum. 

Einar er lögfræðingur að mennt og rak lengi G J Fossberg vélaverslun (nú Fossberg ehf.). Árið  2002 söðlaði hann um og var sveitarstjóri Reykhólahrepps í fjögur ár. Síðan þá hefur hann verið  sveitarstjóri Hvalfjarðarsveitar, lögfræðingur hjá Tryggingastofnun ríkisins og yfirlögfræðingur skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur. Frá árinu 2014 hefur hann starfað sem lögfræðingur hjá Matvælastofnun. 

Einar sat um nokkurra ára skeið í stjórn Neytendasamtakanna en situr í dag í stjórn Blóðgjafafélags Íslands og íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur. Einar er áhugamaður um sjósund og hjólreiðar og fer allra sinna ferða í strætó eða á reiðhjóli enda hefur hann verið  bíllaus í sjö ár. Einar er faðir þriggja barna en það elsta er 20 ára. 
 

 
Screen Shot 2018-04-24 at 21.28.21.png

23. Þorbjörg Inga Þorsteinsdóttir - Lögfræðingur

Þorbjörg Inga lærði hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og síðar lögfræði við Háskólann í Reykjavík.

Þorbjörg á fjögur börn, þar af tvö stjúpbörn, en hún á og rekur fyrirtæki ásamti eiginmanni sínum. 

 
19055228_10211873025413914_9025435061260423964_o.jpg

24. Aron Eydal Sigurðarson - Þjónustufulltrúi

Aron Eydal Sigurðarson fæddist árið 1994 á Akureyri og bjó þar og á Vopnfirði fyrstu árin. Árið 2001 flutti hann til Reykjavíkur en það var einmitt í þjóðfélagsfræði í Réttarholtsskóla sem áhugi hans á stjórnmálum fæddist. 

Í Menntaskólanum við Hamrahlíð fékk hann áhuga á sálfræði og stundar nú nám við Háskóla Íslands og tekur á meðan virkan þátt í hagsmunabaráttu stúdenta, m.a. sem meðlimur í mennta- og menningarmálanefnd SHÍ.

Aron hefur lengi hvatt til kosningaþátttöku ungmenna enda telur hann mjög mikilvægt að allir láti rödd sína heyrast. Aron sat í Reykjavíkurráði ungmenna í tvö ár sem hélt fundinn “Ungt fólk og forsetinn” þar sem ungmenni hittu forsetaframbjóðendur árið 2012 og gátu spurt þá spjörunum úr. Auk þess hélt hann fræðslu um mikilvægi þess að ungt fólk nýti kosningaréttinn sinn og helstu stefnumál framboða fyrir Alþingiskosningarnar 2014 í MH. 
 

 
IMG_4822.jpg

25. Aðalbjörg Guðmundsdóttir - Náms- og starfsráðgjafi

Aðalbjörg ólst upp í Borgarnesi en er nú búsett í vesturbæ Reykjavíkur. 

Hún stundaði nám til stúdentsprófs við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og útskrifaðist þaðan árið 2006. Hún lauk BA prófi í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands árið 2011 og MA prófi í náms- og starfsráðgjöf frá sama skóla árið 2017. Aðalbjörg starfar sem náms- og starfsráðgjafi hjá Háskóla Íslands en hefur einnig unnið sem verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands, starfað á leikskóla í Reykjavík og verið deildarstjóri á alþjóðlegum leikskóla í Kaupmannahöfn. 

Aðalbjörg hefur alltaf haft gaman af því að starfa með fólki og því að sjá hvernig einstaklingurinn getur fundið bestu útgáfuna af sjálfum sér og náð árangri í lífinu. Áhugamál hennar snúa helst að hreyfingu og útivist.

 
Gylfi.jpg

26. Gylfi Ólafsson - Doktorsnemi

Gylfi er Ísfirðingur og var oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi í alþingiskosningunum 2016 og 2017. Gylfi er giftur Tinnu Ólafsdóttur og saman eiga þau tvö börn. 

Gylfi hagfræðingur að mennt og lýku síðar á árinu doktorsprófi í heilsuhagfræði frá Karolinska-stofnuninni í Stokkhólmi. Hann var aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar, fyrst sem formanns og síðar sem fjármála- og efnahagsráðherra. 

Reynslu sína sækir Gylfi í nám og störf í hagfræði og einkum heilsuhagfræði, störf við uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja og ferðaþjónustu. Lengst af hefur Gylfi búið á Ísafirði, en einnig í Stokkhólmi, Akureyri og Reykjavík. Áhugamálin eru samgönguhjólreiðar, skíðaganga og píanódjass.

 
IMG_4689.jpg

27. Dóra Tynes - Lögmaður

Dóra Sif er alin upp í Smáíbúðarhverfi og Vesturbæ, með viðkomu í Osló og Gautaborg. Á barnsaldri var Borgarbókasafnið í miklu uppáhaldi enda var hún á sérstakri undanþágu frá reglu safnsins um hámarksfjölda bóka í útláni. 

Skólagangan hófst í Ísaksskóla en þaðan lá leiðin í Hvassaleitisskóla og svo Menntaskólann í Reykjavík. Dóra Sif er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk LLM gráðu frá Evrópuháskólanum í Flórens. Hún starfaði um árabil í Brussel hjá bæði Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA skrifstofunni en er nú lögmaður í Reykjavík.
 

 
IMG_4506.jpg

28. Lárus Elíasson - Verkfræðingur

Lárus er ættaður að norðan og vestan, uppalin fyrir austan, framhaldsskólagengin á vesturlandi og vestfjörðum en búsettur frá fullorðinsárum á suðvesturhorninu. Hefur auk þess búið í Sviss, Þýskalandi, Belgíu og Bandaríkjunum.

Hann er fyrsta stigs vélstjóri, vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands, meistari í orkuverkfræði frá Tækniháskólanum í Karlsruhe, Þýskalandi og með MBA gráðu frá Ohio Háskóla BNA. Lárus starfaði til sjávar og sveita á yngri árum. Síðar í Tölvu- og hugbúnaðargeiranum, flutningastarfsemi, framleiðsluiðnaði, fjármálstarfsemi, verkfræði- og rekstrarráðgjöf. Hann hefur kennt við Háskóla Íslands, en hin seinni ár hefur Lárus starfað í orkugeiranum og þá aðalega við bygginu sölu og þróun jarðvarmavirkjana bæði hérlendis en þó enn frekar erlendis.

 
IMG_4883.jpg

29. Sóley Ragnarsdóttir - Lögfræðingur

Sóley er 52 ára Reykvíkingur í húð og hár. Hún ólst upp í sundunum og gekk þar í Langholtsskóla. 

Hún varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 1985. Sóley útskrifaðist sem lögfræðingur frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991. Síðar lauk hún diplómanámi í stjórnun hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og tók námskeiði í sáttamiðlun hjá Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur Sóley starfað sem lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Áður var hún deildarstjóri í Þjóðskrá, löglærður fulltrúi hjá Sýslumanninum í Reykjavík og á lögmannsstofu. 

Sóley hefur mikinn áhuga á mannlegu eðli, samskiptum fólks og hvernig fólk geti unnið saman þannig að ólíkir einstaklingar fái að njóta sín. Sóley hefur búið víðs vegar um borgina, í vesturbænum, miðbænum og holtunum en síðasta sumar flutti hún í Breiðholtið og fékk þá nýja sýn á borgina. 
 

 
IMG_4543.jpg

30. Starri Reynisson - Stjórnmálafræðinemi

Starri er fæddur og uppalinn í Reykjavík en var um tíma búsettur á Akranesi. 

Hann gekk í Austurbæjarskóla og Brekkubæjarskóla, lauk stúdentsprófi frá FVA og stundar nú nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslandsnem. Starri hefur sinnt ýmsum verslunar- og þjónustustörfum, m.a. hjá Pennanum-Eymundsson.
 

 
IMG_4717.jpg

31. Sandra Hlín Guðmundsdóttir - Náms- og starfsráðgjafi

Sandra er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún bjó stærstan hluta uppvaxtaráranna í Breiðholtinu og gekk í Breiðholtsskóla öll sín grunnskólaár. 

Sandra útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti árið  2005 og sem uppeldis- og menntunarfræðingur með trúabragðafræði sem aukagrein árið 2010 frá Háskóla Íslands. Eftir útskrift starfaði hún á frístundarheimli, bæði sem aðstoðarforstöðumaður og forstöðumaður. Hún starfaði á leikskóla í nokkur ár á milli stúdentsprófs og háskólagöngu og aftur á meðan hún kláraði meistaragráðu í náms- og starfsráðgjöf. Í dag starfar Sandra sem náms- og starfsráðgjafi í Borgarholtsskóla. 

Sandra hefur tekið þátt í ýmsum félagsstörfum og var meðal annars gjaldkeri Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, meðan hún var í háskólanámi. Þar kviknaði áhuginn fyrir því að hafa áhrif á samfélagið en hún gekk formlega til liðs við Viðreisn haustið 2017. 

 
IMG_4923.jpg

32. Einar Karl Friðriksson - Efnafræðingur 

Einar Karl er fæddur á Akureyri en flutti fljótlega til Reykjavíkur og á sínar fyrstu bernskuminningar úr Sörlaskjóli þar sem hann datt í bólakaf í sjóinn. Æ síðan hefur hann haft einlægan áhuga á að halda fjörum borgarinnar hreinum og aðgengilegum. 

Einar Karl byrjaði í barnaskóla á Akureyri en bjó svo flestöll grunnskólaárin í Svíþjóð. Einar var í Menntaskólanum við Hamrahlíð og varð stúdent 1987, lærði efnafræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist með BS-próf 1992. Hann mældi kvikasilfur í fiski og önnur snefilefni í tvö ár en hélt svo í framhaldsnám til Bandaríkjanna, í Cornell-háskóla í Íþöku í New York-ríki. Hann sagði skilið við tilraunastofuna og hóf að starfa við einkaleyfi og hugverkavernd og hefur síðan starfað sem einkaleyfasérfræðingur hjá fyrirtækinu Árnason Faktor þar sem hann er einn meðeigenda í dag. Hann nýtur þess að vinna fyrir íslenska frumkvöðla, sprotafyrirtæki, rannsóknastofnanir og háskóla.

Einar hefur starfað að ýmsum félagsmálum, tók á unglingsárum þátt í að stofna Ungmennahreyfingu Rauða kross Íslands og var fyrsti formaður félagsins, söng í kór í mörg ár og setið í stjórn Efnafræðifélags Íslands. Hann hefur tekið virkan þátt í félagsstarfi einkaleyfasérfræðinga innanlands og utan, meðal annars kennt á námskeiðum og haldið fyrirlestra, og verið fulltrúi Íslands í starfi evrópskra einkaleyfaforsvarsmanna (European Patent Institute, epi).
 

 
IMG_4274.jpg

33. Sigrún Helga Lund - Dósent í líftölfræði

Sigrún Helga Lund er 36 ára tölfræðingur. Hún fæddist í Mosfellsbæ en er í dag gallharður Vesturbæingur þar sem hún býr ásamt dætrum sínum tveimur.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð vorið 2000, BS gráðu í stærðfræði 2004, kennsluréttindanámi sem framhaldsskólakennari vorið 2007 og doktorsgráðu í tölfræði 2014. Sigrún er dósent við læknadeild Háskóla Íslands sem og í hálfu starfi hjá Íslenskri Erfðagreiningu. Hún hefur kennt stærðfræði og tölfræði við HÍ síðan 2001, en einnig við KHÍ, MH og Opna háskólann. Einnig hefur hún sinnt margvíslegum ráðgjafarstörfum sem tölfræðingur, bæði hjá hinu opinbera sem og einkaaðilum, frá sprotum til stórfyrirtækja.

Hún er einn af stofnendum Samtaka um bíllausan lífsstíl og var þeirra fyrsti formaður árið 2008. Sigrún hefur tekið virkan þátt í ýmsum öðrum félagsstörfum, verið m.a. formaður félags stærðfræði- og eðlisfræðinema við HÍ, BJJ sambands Íslands og setið í stjórn Skraflfélags Íslands þar sem hún lagði hönd á plóg við að koma netskrafl.is á laggirnar. Hún æfir hjá Mjölni og hefur unnið fjóra Evrópumeistartitla í Brazilísku Jiu Jitsu. Hún var einnig liðtækur kórgaulari, fyrst með Hamrahlíðarkórnum en síðar Söngsveitinni Fílharmóníu og kór Áskirkju. 
 

 
jon_mynd_0.jpg

34. Jón Bjarni Steinsson - Framkvæmdastjóri

Jón Bjarni fæddist í Reykjavík en ólst upp í Vogum á Vatnsleysuströnd þar til hann var 10 ára.

Jón Bjarni lauk BS prófi í viðskiptafræði og MA gráðu í skattarétti frá Háskólanum á Bifröst og síðar LLM gráðu frá Háskólanum í Lundi. Í dag býr hann og starfar í miðbænum þar sem hann stjórnar daglegum rekstri á Dillon bar og Chuck Norris grill á Laugaveginum auk þess sem að taka að sér ýmis ráðgjafastörf. Áður hafði hann m.a. starfað hjá Vodafone, Rannsóknastofnun atvinnulífsins, Háskólinum á Bifröst og VSG Eignum ehf.

 
31218658_10156045390225991_657221818393821184_n.jpg

35. Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir - Markaðsstjóri

 
Screen Shot 2018-04-24 at 21.37.53.png

36. Gunnar Björnsson - Forseti Skáksambands Íslands 

Fæddur í Hlíðunum árið 1967. 

Gunnar lauk BS prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2009. Hann var Bankastarfsmaður frá 1990 til 2013, í þremur bönkum og gegndi þar ýmsum störfum. 

Byrjaði að tefla 10 ára þegar Hort og Spassky tefldu einvígi á Loftleiðum árið 1977 og hef verið mikill skákáhugamaður síðan. Stofnaði ásamt fleirum Taflfélagið Helli árið 1991 og var fyrsti formaður þess. Tók sæti í stjórn Skáksambands Íslands árið 1992 og tók við forsetaembættinu árið 2009 sem hann hefur gengt síðan. Frá 2013 hefur Gunnar verið í fullu starfi hjá Skáksambandinu.

 
1293073_511365028946937_2107738093_o.jpg

37. Ásdís Rafnar - Lögfræðingur

Ásdís útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1979. Hún starfaði lengst af sem hæstaréttarlögmaður en situr nú í ýmsum nefndum ofl. Hún er búsett í Grafarholti ásamt eiginmanni sínum, Jóni B. Stefánssyni skólameistar og eiga þau 2 dætur, tengdasyni og 4 barnabörn.

 
12472500_1766981323580437_7241779821940645807_n.jpg

38. Lúðvíg Lárusson -Sálfræðingur

Lúðvíg fæddist í Reykjavík árið 1947.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið  1968, cand.psych. próf frá Hafnarháskóla árið  1985 og MBA prófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2005. Lúðvíg starfaði sem sálfræðingur á félagsmálastofnunum á Stór-Kaupmannahafnarsvæðinu 1986-1995 og þar af eitt ár á barnadeild á Amtssjúkrahúsinu í Gentofte. Fluttist þá til Íslands og hóf þá störf á sálfræðideildum skóla í Reykjavík. Lúðvíg lét nýlega af störfum hjá Geðheilsustöð Breiðholts vegna aldurs.

Lúðvíg var formaður Félags fagfólks í fjölskyldumeðferð 2002-2003, stóð fyrir fyrstu norrænu ráðstefnunni sem haldin var á Íslandi þá ásamt stjórninni og gegndi trúnaðarstöfum fyrir danska sálfræðingafélagið og það íslenska. 

 
22310532_10155813988893792_336044567440341477_n.jpg

39. Stefanía Sigurðardóttir - Viðburðarstjóri

Formlega heitir hún Stefanía en er alltaf kölluð Stella. Hún er stoltur Breiðhyltingur, alin upp í 111, var þar í Hólabrekkuskóla í upphafi en kláraði grunnskólagönguna í Fellaskóla. Því næst lá leiðin í Fjölbrautaskólan í Breiðholti. Á þeim árum í Fellaskóla og FB hófst félagsmálastarf Stellu þar sem hún leiddi nemendafélög, setti upp söngleiki og passaði upp á réttindi nemenda. Stella segir Breiðholtið eitt best skipulagða hverfi Reykjavíkur, en á sínum 14 ára skólaferli labbaði hún yfir eina gangbraut til að komast til skóla, verslanir nálægt og öll þjónusta. 

Félagsmálabakterían hefur verið með henni alla tíð og því fannst henni upplagt að læra listræna viðburðastjórnun í Bretlandi. Hún hefur unnið sem viðburðastjóri, ferðaskipuleggjandi, kosningastjóri og nú framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar. 
 

 
11351164_10153366054507458_4733216837540725865_n.jpg

40. Samúel Torfi Pétursson - Skipulagsverkfræðingur

Samúel Torfi Pétursson fæddist í Reykjavík árið 1976 en ólst upp í Garðabæ. Hann hefur búið í Reykjavík síðan 2003 eftir að hafa snúið heim úr framhaldsnámi í verkfræði frá Danmörku. Fyrst á vesturbænum, síðan í miðbænum og nú í Holtunum.

Samúel starfar sem ráðgjafarverkfræðingur á Umhverfis- og skipulagssviði hjá VSÓ ráðgjöf og hefur nú um 15 ára reynslu á sviði umhverfis- og skipulagsverkefnum, hönnun samgöngumannvirkja og verkefnum fyrir fasteigna- og fasteignaþróunarfélög. Samúel skrifaði greinar á vefritið Deigluna.com um nokkurra ára skeið með áherslu á áhugamál sín og var valinn Deiglupenni ársins 2006 fyrir framlag sitt þar.

Hann hefur verið meðlimur í Viðreisn frá stofnun og fór að taka virkan þátt sumarið 207 og settist í stjórn Reykjavíkurráðs þá. Samúel tók virkan þátt í að stofna Samtök um bíllausan lífsstíl og er í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík.
 

 
31265403_10156045396665991_8320196407994613760_n.jpg

41. Jóhanna E. Sveinsdóttir - Viðskiptafræðingur

Jóhanna starfar við bókhald. Hún er fyrrum stjórnarmaður í VR þar sem hún barðist fyrir auknu lýðræði í verkalýðsfélögum og auknu félagafrelsi almennt. 

 
IMG_4800.jpg

42. Jón Júlíus Karlsson - Framkvæmdastjóri

Jón Júlíus ólst upp í Grindavík. Hann er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla.

Jón Júlíus starfar sem framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar. Áður hafði hann starfað sem markaðs- og skrifstofustjóri Golfklúbbsins Odds í Garðabæ og sem íþróttafréttamaður á RÚV og fréttamaður á Stöð 2.

 
IMG_4490.jpg

43. Tanja Kristín Leifsdóttir - Grunnskólakennari

Tanja er 28 ára, fædd og uppalin í Breiðholtinu. 

Hún hóf skólagöngu sína í Breiðholtsskóla og þaðan lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands. Eftir menntaskóla ákvað hún að taka sér hlé frá skóla og réði sig í vinnu í grunnskóla. Starfið fannst henni heillandi og hóf hún í kjölfarið nám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands þar sem hún lauk námi sem grunnskólakennari. 

Íþróttir hafa alltaf spilað stórt hlutverk hjá Tönju en hún æfði sjálf fimleika og ballett frá unga aldri. Eftir að grunnskóla lauk þurfti hún þó að leggja ballettskóna á hilluna og varð fimleikasalurinn hennar annað heimili. Núna hefur keppnisgallanum verið skipt út fyrir þjálfaragalla en hún þjálfar meistaraflokk kvenna í hópfimleikum í Stjörnunni. 

 
1523875_10152529691015968_770921292_o (1).jpg

44. Andri Guðmundsson - Viðskiptafræðingur

Andri fæddist í Reykjavík árið 1990 og ólst upp í Laugardalnum. 

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund árið 2010, BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014 og mun ljúka MBA gráðu frá sama skóla nú í vor. Andri starfar við vöru- og verkefnastjórnun hjá Arctic Adventures en var áður leiðsögumaður hjá sama fyrirtæki. Þá hefur hann unnið við söluverkefni hjá Búngaló, flísalagnir og múrvinnu hjá G.M. Einarsson og fleira.

Andri er virkur í félagsstarfi af ýmsum toga og hefur frá árinu 2007 verið meðlimur á útkallsskrá hjá Hjálparsveit skáta í Garðabæ en hefur m.a. sinnt stjórnar- og trúnaðarstörfum fyrir HSG, Landsbjörg og Íslandsspil.
 

 
31285948_10215774227572855_2157398639082516931_n.jpg

45. Jóhanna Fjóla Ólafsdóttir - Fyrrverandi lektor

Jóhanna Fjóla stundaði nám á Íslandi, Frakklandi, Svíþjóð og Írlandi þar sem hún lærði tónlist,  tónlistarvísindi, leiklistarvísindi og uppeldisfræði. 

Jóhanna Fjóla hefur sinnt ýmsum störfum m.a. í The Gaiety School of Acting í Dublin á Írlandi, nokkrum grunnskólum í Gautaborg, Leiklistarskóla Íslands, Fósturskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Síðast starfaði hún sem lektor í tónlist og leikrænni tjáningu við Háskóla Íslands en er nú á ellilífeyri. 

Hún er gift Þorsteini Eggertssyni, söngvaskáldi og kennara og búa þau í Skipholtinu. Börn Jóhönnu Fjólu eru þrjú auk tveggja fósturbarna, saman eiga þau Þorsteinn 11 barnabörn.

 

 
IMG_4915.jpg

46. Benedikt Jóhannesson -  Stærðfræðingur 

Benedikt er fæddur í Reykjavík árið 1955.

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1975, B.Sc.-prófi í stærðfræði með hagfræði sem aukagrein frá University of Wisconsin árið 1977, MS-prófi í tölfræði frá Florida State University árið  1979 og loks doktorsprófi í tölfræði sem aðalgrein og stærðfræði sem aukagrein frá Florida State University 1981.

Benedikt sinnti kennslu við Verslunarskóla Íslands 1982–1986. Hann stofnaði árið 1984 ráðgjafarfyrirtækið Talnakönnun og stýrði því til ársins 2016. Hann var framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins Heims 2000–2016, ritstjóri Skýja 2005–2016 og Vísbendingar 2006–2016. Benedikt hefur setið í og gegnt formennsku í allmörgum stjórnum fyrirtækja, nefndum og ráðum. Hann var formaður Viðreisnar 2016-2017, alþingismaður Norðausturkjördæmis 2016–2017, formaður efnahags- og viðskiptanefnd 2016–2017 og fjármála- og efnahagsráðherra á árinu 2017.